Hagnaður flugfélagsins Atlanta nam í fyrra um 3,4 milljónum Bandaríkjadala, eða því sem samsvarar um 400,7 milljónum króna á núverandi gengi, samanborið við 4,1 milljónar dala hagnað árið áður. Tekjur félagsins námu 289 milljónum dala og jukust um 39 milljónir dala á milli ára. Rekstrarkostnaður nam á móti 284,6 milljónum dala og jukust um 40,7 milljónir dala.

Segja má að árið 2012 sé fyrsta heila rekstrarár félagsins eftir fjárhagslega endurskipulagningu og gefur því heildstæðari mynd af rekstrinum en árið 2011.

Handbært fé frá rekstri var í lok árs um 1,6 milljónir dala. Fram kemur í ársreikningi að laun Hannesar Hilmarssonar, forstjóra félagsins, hafi numið um 224 þúsund dölum á árinu, eða því sem samsvarar tæplega 2,2 milljónum króna á mánuði.