Flugfélagið Atlanta á í viðræðum um að nær tvöfalda eignarhlut sinn í breska flugfélaginu Excel Airways, en kaupin hefðu jafnframt í för með sér yfirtökuskyldu á félaginu. Þetta kom fram á fréttavef skoska blaðsins Scotsman í morgun, en þar er vitnað í fréttatilkynningu frá Excel þar sem staðfest er að viðræðurnar standi yfir.

Atlanta á um 40% hlut í Excel. Viðræður standa yfir við næststærsta
hluthafann, Libra Holidays, um að kaupa bróðurpartinn af 39% hlut þess
félags.

Kaupin hefðu í för með sér skyldu til að bjóða í öll hlutabréf í félaginu,
þ.e. það sem eftir stæði af hlut Libra og auk þess um 20% sem eru í eigu
lykilstarfsmanna Excel.

Excel var stofnað fyrir fjórum árum og flýgur nú til 75 áfangastaða, einkum
frá Gatwick, Manchester og Glasgow. Fyrr á þessu ári seldi
kjölfestufjárfestirinn Libra um 40% hlut til Atlanta fyrir 30 milljónir
punda.