*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Frjáls verslun 16. október 2019 07:30

Atlanta kemur frá Liechtenstein

Óhætt er að segja að nafn flugfélagsins Air Atlanta hafi komið úr nokkuð óvæntri átt að sögn stofnandans.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Saga flugfélagsins Air Atlanta er á margan hátt merkileg en undir stjórn stofnandans Arngríms Jóhannssonar fór félagið úr því að ferjufljúga Boeing vélum til niðurrifs í að verða leiðandi flugfélag á sínu sviði í heiminum. Arngrímur stofnaði Air Atlanta ásamt Þóru Guðmundsdóttur, þáverandi eiginkonu sinni árið 1986 en að hans sögn kom nafnið á flugfélagin úr nokkuð óvæntri átt. 

„Ég sótti um flugrekstrarleyfi og mér til undrunar þá fékk ég það en yfirvöld voru á þessum tíma með nokkuð bundnar hendur af áætlunarfluginu. Ég og Þóra vorum í Liechtenstein á þessum tíma þegar þeir hringdu og sögðu að ég væri búinn að fá leyfið en þá vantaði nafn á félagið. Við vorum inn á hóteli og ég lá bakveikur þegar Þóra kemur inn á tauginni með lykill af herberginu og segir að við þurfum að finna nafn. Svo ég spyr hvað standi á lyklunum og hún segir, Hotel Atlanta. Ég segi fínt nafn, ef hótel í Liechtenstein getur heitið Atlanta þá getur flugfélag auðveldlega heitið það og þannig er nafnið til komið.“

Fyrst um sinn voru verkefni Atlanta fá og fólust þau fyrstu í að ferjufljúga Boeing 707 þotum til niðurrifs. „Þetta er í raun svolítið skringileg saga. Fyrstu verkefni félagsins komu þannig til að maður að nafni Richard Elliot, sem var verkfræðingur hjá Boeing og ég hafði kynnst áður, hringir í mig og segir að hann vanti mann til þess að ferjufljúga Boeing 707 vélum sem verið var að breyta í tanka. Þá vantaði hins vegar nefið, stélið og mótora þannig að þeir voru að kaupa alla veganna flök af 707 vélum. Verkefnin fólust því í að fljúga vélum alls staðar að úr heiminum til Davis- Monthan í Arizona þar sem sá stóri flugvélakirkjugarður er.

Þetta endaði með því að við ferjuðum átta vélar í sandinn í Arizona fyrir Boeing. Þetta voru ýmiss konar flök sem við vorum að fljúga. Á einni flugum við með eitt hjól hangandi niðri og á annarri gátum við ekki þrýstijafnað þar sem það voru svo mörg göt á henni að hún hefði byrjað að flauta eins og kirkjuorgel, og allavega vélar sem við komum með þarna inn. Það er til bók sem heitir Desert Airliners og í henni eru þrjár eða fjórar vélar sem búið er að höggva nefið af með áletrunina TF sem eru einkennisstafir véla á íslensku flugrekstarleyfi.“

Mánaðarsamningar urðu að árum

Að sögn Arngríms byrjaði Atlanta að fá sitt fyrsta fjármagn með ferjufluginu til Arizona. „Svo byrjar næsti þáttur í sögu félagins á að ég var að fara með vél frá Qantas sem var í fínu standi. Þetta var að vori en það átti ekki að rífa hana fyrr en um haustið svo ég segi við Richard að ég vilji leigja vélina af þeim, setja hana á íslenskt flugrekstrarleyfi og ég myndi borga af henni leigu ef ég myndi eftir því þar sem ég er með lélegt minni. Hann hló nú bara af því en samþykkti að láta mig fá vélina. Ég vissi af samningi milli Englands og Bahamas sem var borgaður fyrirfram þannig að vélin var notuð í það verkefni.

Svo fékk ég annan samning sem var á Kýpur fyrir félag frá Líbanon sem sem fór á hausinn en var þarna í miðjum samningi og ég spurði hvort ég gæti ekki bara tekið þetta yfir og það varð úr. Þar með var fyrirtækið byrjað að rúlla og við flugum frá Kýpur, Krít og til Helsinki fimm sinnum í viku. Þegar það er í gangi þá kemst ég í samband við Finnair sem voru í dálitlum vandamálum þar sem þeir fluttu heilmikla frakt frá Austurlöndum fjær á Douglas DC10 breiðþotum en innan Evrópu voru þeir með Douglas DC-9 sem voru minni og voru því óhentugar fyrir stöðluðu vörubrettin sem flugfélögin notuðu sín á milli. Við gátum hins vegar boðið þeim Boeing 737 fraktvél sem hentaði betur. Þarna var upphaflega gerður hálfsárs samningur sem varð að fjórum árum. Við flugum frá Helsinki til London, Dusseldorf og Frankfurt. Síðan var þetta orðið það mikið að Lufthansa vildi fá þetta líka. Vegna þess verkefnis kom sagan um þjóðarþotuna. Fjármögnun vélarinnar gekk hins vegar á endanum og við skrifuðum undir samning við Lufthansa sem upphaflega var til þriggja mánaða en stóð að lokum í níu ár.

Nánar er rætt við Arngrím í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér.

Stikkorð: Arngrímur Jóhansson