Air Atlanta og Bluebird eiga nú í viðræðum um kaup á flugrekstrareignum þrotabús Wow air, eftir að ekkert varð af kaupum bandarísku athafnakonunnar Michele Ballarin á þeim. Sagt er frá þessu í Morgunblaðinu í morgun .

Áður en tilkynnt var um kaup Ballarin á eignunum höfðu Air Atlanta og Bluebird að sögn sýnt því áhuga að kaupa eignirnar í sameiningu, en eigendur Air Atlanta eiga einnig helmingshlut í Bluebird.

Þráðurinn hefur nú verið tekinn upp á ný, eftir að skiptastjórar þrotabús Wow air riftu kaupum Ballarin vegna ítrekaðra vanefnda á greiðslu.

Fram kemur ennfremur í frétt Morgunblaðsins að Air Atlanta og Bluebird búi yfir mikilli reynslu af farþegaflutningum, þar á meðal fyrrverandi stjórnendum Icelandair og Wow air.