Boeing 747-200 vél Air Atlanta lenti í hremmingum þann 27. maí sl. eftir að slokknað hafði á einum hreyfli vélarinnar. Eftir að hafa sleppt um 53 tonnum af flugvélaeldsneyti lenti vélin þó heilu höldnu.

Atvikið átti sér sem fyrr segir stað í lok maí eftir því sem fram kemur á vef Aviation Herald. Fraktvélin, með skráningarnúmerið TF-ARJ (og er ranglega sögð vera af gerðinni 747-400 í fyrrnefndri frétt) var á leið frá Lúxemborg til Angola. Um 50 sjómílum suðsuðvestur af Turin á Ítalíu urðu flugmenn vélarinnar varir við bilun og í kjölfarið slokknaði á einum hreyfla hennar.

Flugmenn hennar lækkuðu í kjölfarið flugið, slepptu úr henni eldsneyti og flugu henni aftur til Lúxemborg þar sem vélin lenti 80 mínútum síðar. Samkvæmt upplýsingum frá svissneskum flugmálayfirvöldum sleppti vélin um 53 tonnum af flugvélaeldsneyti yfir Ítalíu og Sviss áður en hún lenti. Algengt er að það neyðarúrræði sé notað þegar vélar lenda í erfiðleikum og þurfa að nauðlenda eða framkvæmda öryggislendingu. Í þessu tilviki var í raun ekki um hættuástand að ræða en þó er nauðsynlegt að létta vélina áður en henni er lent. Ekki eru allar vélar sem hafa þann eiginlega að geta losað eldsneyti með þessum hætti.