Í Hálf fimm fréttum Kaupþing segir að stefnt sé að skráningu færeyska flugfélagsins Atlantic Airways í Kauphöll Íslands þann 10. desember næstkomandi að undangenginni hlutafjársölu til fagfjárfesta og almennra fjárfesta.

Samgöngu- og iðnaðarráðuneytið í Færeyjum hyggst selja 33% hlutafjár í félaginu og mun útboðsgengi ákvarðast á áskriftarverðlagningu dagana 19.- 27. nóvember, en liggja þó á bilinu 242-261 danskar krónur á hlut. Seljandi gæti fengið 82,7- 89,1 milljónir danskar krónur fyrir sinn snúð. Markaðsverðmæti flugfélagsins gæti því orðið allt að 3,2 milljarðar íslenskra króna seljist allt sem í boði er.

Atlantic Airways verður þar með fjórða færeyska félagið sem skrásetur sig á íslenskan hlutabréfamarkað. Fyrr á árinu komu Eik banki og Føroya Banki á markað en olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum ruddi brautina árið 2005 samkvæmt því sem segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.