Færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum, sem skráð er í Kauphöll Íslands, tilkynnti í morgun að félagið hefði ásamt fleirum fengið leyfi til frekari olíuleitar á færeyska svæðinu.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu spannar hið nýja leitarsvæði um 312 ferkílómetra en þetta ku vera stærsta svæðið sem Færeyingar hafa gefið leyfi til leitar á hafsvæði sínu.

Atlantic Petroleum á samkvæmt tilkynningunni 10% í nýju félagi sem tekur að sér leitina. Önnur félög eru norska félagið StatoilHydro með 50%, DONG Energy með 30% og Faroe Petroleum með 10%.

Þessi félög munu vinna í sameiningu að því að kanna hafsvæðið sem um ræðir og hafa sex ár til að ákveða hvort borað verði eftir olíu eður ei.

Atlantic Petroleum á þegar hlut í þremur öðrum leyfum á hafasvæði Færeyinga.

Wilhelm Petersen, forstjóri Atlantic Petroleum segir í tilkynningunni að hið nýja leyfi muni koma sér vel fyrir hluthafa félagsins. Atlantic Petroleum hafi grundvallað starfssemi sína í því að leita og kanna möguleg olíu- og gassvæði í kringum Færeyjar.

Þá segir hann að samvinnan við hin félögin komi sér vel.