Færeyska olíu- og gasleitarfyrirtækið Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ], sem skráð er í Kauphöll Íslands hefur í samstarfi við önnur félög fundið olíulind í Atlantshafinu, nánar tiltekið á Blackbird svæðinu í Norðursjó Bretlands. Svæðið sem um ræðir er kallað 20/2a svæðið.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar en í henni kemur einnig fram að gert er ráð fyrir að hér sé um góða hráolíu að ræða.

Félagið er þó ekki eitt um hituna því leitin fór fram undir svokölluðu Blackbird verkefni en þar á Atlantic Petroleum rúmlega 8% hlut. Aðrir þátttakendur í verkefninu eru Nexen með tæp 80% hlut og Bow Valley með 12% hlut.

Atlantic Petroleum er með borholu á Ettrick svæðinu í Atlantshafi en svæðið sem um ræðir í tilkynningunni er um sex kílómetrum sunnar. Í tilkynningunni kemur fram að félagið mun á næstunni undirbúa það að dæla olíu upp úr svæðinu og mun samhæfa starf þessara tveggja starfsstöðva. Ekki þarf að reisa nýja stöð á Blackbird svæðinu heldur verður unnið að því að tengja þau saman.