Færeyska olíufyrirtækið Atlantic Petroleum hefur tilkynnt að það muni halda áfram óskertum 8,27% hlut sínum í P317 olíuleitarleyfinu í bresku lögsögunni. Það felur líka í sér hlutdeild í svokallaðri Blackbird olíulind sem fannst í fyrrasumar.

Wilhelm Petersen, framkvæmdastjóri Atlantic Petroleum, segir þetta mikilvægt fyrir félagið og hluthafa þess. Félagið keypti 8,27% hlut í P317 olíuleitarleyfinu árið 2003 af Premier Oil, en það nær m.a. yfir leit á svokölluðu Ettrick svæði. Premier Oil átti þó áfram rétt á að koma inn í samninginn að 5,515% hluta. Sömu leiðis átti Premier Oil rétt á að koma inn í málið að nýju ef olía finnst innan P317 svæðisins þó það sé utan Ettrick olíulindarinnar, en þarf þá að taka þátt í leitarkostnaði. Þar sem Premier Oil hefur enn ekki nýtt sér þennan rétt er yfirráðaréttur Atlantic Petroleum yfir þessum hluta P317 olíuleitarleyfisins óskertur.

Þetta þykir einkum mikilvægt fyrir Atlantic Petroleum í ljósi þess að fundurinn á Blackbird olíulindinni í fyrrasumar þykir gefa góðar vonir. Sú olíulind er um sex kílómetra suður af Ettrick olíusvæðinu.

Eigendur P317 olíuleitarleyfisins í dag eru olíuvinnslufyrirtækið Nexen sem á 79,73% hlut, Bow Valley sem á 12 % hlut og Atlantic Petroleum sem er með 8,27% hlutdeild í leyfinu.