Fæeyrska olíuleitarfyrirtækið Atlantic Petroleum hefur keypt hlut í tveimur olíuleitarverkefnum í Norðursjó af öðru olíuleitarfyrirtæki, Summit Petroleum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Atlantic Petroleum sem er skráð í Kauphöllina hér á landi.

Um er að ræða 20% hlut á tveimur svæðum, annars vegar á svæði P1610 og hins vegar P1766 en bæði svæðin eru austan við Bretlandseyjar nálægt svæði sem kallast Captain Field en að sama skapi svæðunum Blake og Ross Fields. Atlantic Petroleum á fyrir hlut í fjölmörgum leitarverkefnum á svæðinu. Gera má ráð fyrir að leit hefjist á svæðinu á næsta ári.

Þá hefur Atlantic Petroleum einnig fest kaup á 20% hlut frá Nexen Petroleum í leitarverkefni á svæði P1100, sem er norðan við Skotland.