Í næstu viku munu Atlantic Petroleum og Bakkavör birta ársuppgjör, segir greiningardeild Landsbankans.

Greiningardeildin spáir Bakkavör um 248,6 milljónum punda veltu og 29,3 milljón punda EBITDA-framlegð. Það er 11,8% af veltu.

Tekjuvöxtur Bakkavarar á fyrstu níu mánuðum ársins dróst saman frá árinu á undan en á sama tíma jókst framlegðin.

Skýringuna er að finna í því að unnið hefur verið í því að hætta framleiðslu á vörum sem ekki skila ásættanlegri framlegð.

Stjórnendur félagsins hafa sagt að þeir eigi von á að tekjuvöxturinn haldist áfram lágur á meðan unnið er að bættri framlegð og er því ekki reiknað með miklu innri vexti á fjórða ársfjórðungi frá sama tímabili í fyrra.

Það stóð til að Actavis myndi birta í næstu viku en félagið sendi frá sér tilkynningu í vikunni þess efnis að birting ársuppgjörsins hefði verið frestað til 7. mars.

Ástæður þess má rekja til tafa á uppgjöri samheitalyfjasviðs Alpharma sem Actavis festi nýverið kaup á, segir greiningardeildin.