Færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum hagnaðist um 21,7 milljónir danskra króna, jafnvirði tæpra 445 milljóna íslenskra króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 1,5 milljónum danskra króna meira en á sama tíma í fyrra. Hagnaður félagsins hefur aldrei verið meiri. Rekstrarhagnaður nam 77 milljónum danskra króna sem er sambærilegt og á sama tíma í fyrra.

Í uppgjöri félagsins kemur fram að tekjur námu 279 milljónum danskra króna og hafa þær aldrei verið meiri.

Félagið átti 231 milljón danskra króna í lok tímabilisins samanborið við 114 milljónir í lok síðasta árs. Tekið er fram í uppgjörinu að félagið eigi í dag 275 milljónir danskra króna af handbæru fé og hefur það aldrei verið meira.

Tekið er fram í tilkynningu með uppgjörinu að olíuframleiðsla er í hærri kantinum á Ettrick-svæðinu og og Chestnut-svæðinu en undir væntingum á öðrum stöðum auk þess sem tafir hafa orðið á olíuleit og framleiðslu annars staðar. Gert er ráð fyrir að olíuframleiðsla verði meiri en spáð var. Til viðbótar á Atlantic Petroleum í samtarfi við önnur olíufélög um olíuleit.

Hlutabréf Atlantic Petroleum eru tvíhliða skráð í Kauphöllina hér og í Danmörku. Engin hreyfing er á gengi bréfanna hér í dag. Það hefur hins vegar hækkað um 3,89% í Danmörku frá upphafi viðskiptadagsins.

Uppgjör Atlantic Petroleum