Færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum skrifaði í dag undir samning um þátttöku í olíuvinnslu á svokölluðu West-Lennox svæði, sem er í hafinu milli Írlands og Bretlands. Samningurinn felur einnig í sér könnun á Crosby svæðinu, sem er í sama hafi. Bæði svæðin eru að mestu ókönnuð, en tilraunaboranir hafa leitt í ljós að þar er olíu að finna sem líklegt er að unnt verði að vinna á næstu misserum.

Atlantic Petroleum á 25% hlut í þessu verkefni og mun fyrirtækið þess vegna líklega þurfa að taka á sig um 15 milljónir danskra króna í kostnað til þess að hefja vinnslu á svæðinu. Ef frekari tilraunaboranir á West Lennox svæðinu leiða í ljós að olíuvinnsla þar sé fýsilegur kostur, mun vinnsla að líkindum hefjast eins fljótt og auðið er og fyrsta olía þaðan væri þá væntanleg á 3. fjórðungi ársins 2006.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.