Hugmynd að olíubirgðastöð á Reyðarfirði kviknaði fyrir tveimur árum og hefur verkfræðistofan Mannvit unnið markvisst að undirbúningi þess frá því í september 2008. Mannvit kynnti verkefnið fyrir Atlantik Tank Storage í janúar síðast liðnum og hafa fyrirtækin skrifað undir samstarfsamning um verkefnið.

Verkfræðistofan Mannvit er stærsta ráðgjafafyrirtæki landsins á sviði verkfræði og tækni með starfsstöðvar á níu stöðum utan höfuðborgarinnar. Þá er fyrirtækið með fjölmörg verkefni erlendis meðal annars í gegnum dótturfyrirtæki í Ungverjalandi.  Á liðnum árum hefur Mannvit sinnt mörgum verkefnum fyrir íslensku olíufélögin og hafa starfsmenn Mannvits meðal annars komið að hönnun, byggingu og endurbótum fjölda olíubirgðastöðva á Íslandi.

Atlantic Tank Storage er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2006. Fyrirtækið leigir og rekur þrjár olíubirgðastöðvar á Íslandi, tvær í Hvalfirði, eina í Helguvík auk einnar birgðastöðvar í Noregi. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu stærsta olíugeymslufyrirtækis Svíþjóðar, Scandinavian Tank Storage, en það á og rekur birgðastöðvar á Norðurlöndunum og þjónar þar mörgum af stærstu olíufyrirtækjum Evrópu. Hjá fyrirtækjunum tveimur starfa um 30 manns.

Í umsókninni er sótt um lóð fyrir 244.000 rúmmetra olíubirgðastöð á Reyðarfirði, fyrir hönd Atlantic Tank Storage.  Birgðastöðin er hönnuð fyrir geymslu á almennum olíuvörum þ.m.t.  bensíni, gasolíu og jarðolíu og er gert ráð fyrir að í stöðinni verði um 13 geymar. Áætlaður byggingartími er 15-18 mánuðir og er gert ráð fyrir 120 til 150 ársverkum við byggingu stöðvarinnar. Þegar byggingunni er lokið munu þrír til fimm starfsmenn annast reksturinn.