*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 3. nóvember 2004 09:21

Atlantsolía í meðbyr

skýrsla Samkeppnisstofnunar nýtist þeim vel

Ritstjórn

Atlantsolía hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð í sinn garð á undanförnum dögum í kjölfar skýrslu Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna þriggja, Skeljungs, Esso og Olís sem kom út á föstudaginn. "Við höfum fengið mjög sterk viðbrögð frá öllum landsfjórðungum síðan á föstudaginn en það eru íbúar hinna ýmsu bæjarfélaga sem lýsa yfir miklum áhuga sínum á að fá okkur á staðinn," segir Hugi Hreiðarsson markaðsstjóri Atlantsolíu í frétt í Viðskiptablaðinu í dag. Hann segir þar einnig að sala félagsins á bensíni og díselolíu hafa aukist einnig frá því að skýrslan kom út. "Við höfum fundið fyrir ágætri aukningu en engri sprengingu."
 
Hugi sagði mjög mikilvægt í ljósi þess sem gerst hefur að almenningur geri sér grein fyrir því að fólk hefur það í valdi sínu að stuðla að aukinni samkeppni með því að velja Atlantsolíu. Ennþá sé félagið á einungis tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu og því þurfi fólk í einhverjum tilfellum að leggja krók á leið sína til að versla við fyrirtækið en með því móti leggi það grunninn að samkeppni á þessum markaði til langframa. Atlantsolía er hins vegar að hefja byggingu sjálfsafgreiðslustöðvar við Sprengisand innan nokkurra vikna og þá munu Reykvíkingar njóta sama verðs og Kópavogsbúar og Hafnfirðingar. Hugi sagði að þrátt fyrir að vera einungis með tvær stöðvar af 63 sjálfsafgreiðslustöðvum á höfuðborgarvæðinu séu áhrif félagsins á verðlagninguna mjög mikil.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.