Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur hafnað kröfum Atlantasolíu, en Atlantsolía kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er fólst í gerð sáttar vegna samruna N1 hf. og Festar hf. Beindist kæran að tilteknum skilyrðum sáttarinnar er fram koma í 10., 11. og 19. grein hennar.

Meðal þess sem Atlantsolía gerði kröfu um var að fyrirtækinu yrði heimilt að bjóða í eldsneytisstöðvar Dælunnar, en N1 var gert að selja stövarnar samkvæmt fyrrnefndri sátt. Í sáttinni kom fram að nýr aðili þyrfti að kaupa bensínstöðvar Dælunnar, til þess að efla samkeppni á olíumarkaði. Kröfur Atlantsolíu voru eftirfarandi:

  • a. að fellt verði úr gildi skilyrði 1. mgr. 10. gr. sáttarinnar að eldsneytisstöðvar og vörumerkið „Dælan" verði selt til nýrra aðila þannig að ákvæði 1. mgr. 10. gr. verði svohljóðandi: „N1 skal í kjölfar undirritunar sáttar þessarar selja frá sér eldsneytisstöðvar eins og nánar greinir í ákvæði þessu ásamt vörumerkinu „Dælan" til óháðra aðila á eldsneytismarkaði. Skal allt markaðsefni og annað sem vörumerkinu tengist fylgja með í sölunni. Nánar tiltekið skal eftirfarandi fylgja með að lágmarki: [...]"
  • b. Að g-lið 2. mgr. 10. gr. sáttarinnar verði breytt á þann veg að felld verði brott orðin „nýr aðili" og í staðinn komi „kaupandi".
  • c. að b-liður 1. mgr. 11. gr. sáttarinnar verði breytt á þann veg að felld verði brott orðin „og aðra keppinauta á eldsneytismarkaði".
  • d. Að 19. gr. sáttarinnar verði felld brott í heild sinni.

Eins og áður segir var kröfum Atlantsolíu hafnað og kom meðal annars eftirfarandi rökstuðningur fram í niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar:

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er ekki fallist á kröfur áfýjanda um að tilgreind ákvæði 10. og 11. gr. þeirrar sáttar sem Samkeppniseftirlitið og N1 hf. gerðu þann 30. júlí 2018 feli í sér samkeppnishindrun á markaðnum og fari þannig gegn ákvæðum samkeppnisslaga. Þá verður heldur ekki séð að með fyrrgreindum ákvæðum sáttarinnar hafi samkeppnistaða áfrýjanda verið skert eða með öðrum hætti verið brotið gegn lögvörðum réttindum hans. Er kröfum áfrýjanda því hafnað.