Atlassími ehf. hefur í samstarfi við Net-Vísi ehf. og Höfuðborgarstofu opnað fyrstu símamiðstöð sinnar tegundar á Íslandi en slík miðstöð er þekkt sem phone- eða call center erlendis. Mínútugjald á erlendum símtölum er með því allra minnsta sem þekkist þegar hringt er í gegnum símamiðstöðina segir í tilkynningu félagsins.

Símamiðstöðin var opnuð í upplýsingamiðstöð ferðamanna Aðalstræti 2 í Reykjavík. Miðstöðinni er ætlað að mæta brýnni þörf á samskiptalausnum fyrir erlenda ferðamenn en aðgengi að gjaldsímum í miðborginni er með allra minnsta móti miðað við þann fjölda ferðamanna sem hingað koma. Símamiðstöðin hentar einnig hverjum þeim sem vill hringja ódýrt til útlanda.

Viðskiptin fara þannig fram að keypt eru inneignarkort í afgreiðslu upplýsingamiðstöðvarinnar sem gilda í símamiðstöðinni. Kortið gildir síðan í þrjá mánuði frá fyrstu notkun og geta viðskiptavinir komið í símamiðstöðina hvenær sem er á þessu tímabili. Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti er opin frá kl. 9 á morgnana til 23 á kvöldin. Dæmi eru um að símtal til Bandaríkjanna kosti 60 kr. á mínútuna frá hótelsíma. Hjá Atlas Call Centre (símamiðstöð Atlassíma) kostar mínútan hins vegar rétt rúmar 9 kr. Hér er því um að ræða verulega kjarabót fyrir erlenda ferðamenn.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að Atlassími hefur um nokkurt skeið unnið að því að hasla sér völl á íslenskum fjarskiptamarkaði. T.d. með útgáfu alþjóðlegra símakorta en það er getur verið allt að 80% ódýrara fyrir símnotendur að hringja erlendis með Atlasfrelsi. Viðskiptavinir fyrirtækisins geta nú valið milli þriggja fyrirframgreiddra símakorta sem Atlassími gefur út. Þetta eru 1.000 kr. Atlasfrelsi, 2.000 kr. Atlassfrelsi og 1.000 kr. Atlas 800 en Atlas 800 kortið er fyrsta kort sinnar tegundar á Íslandi. Það er að fullu fyrirframgreitt en ekki bara utanlandsleggur símtalsins eins og tíðkast með önnur kort á markaðnum. Atlas 800 kortið er sérstaklega ætlað erlendum ferðamönnum en þeir eiga því venjast að geta notað kortin í t.a.m. gjaldsíma án þess að þurfa að setja mynt í símann. Nú að síðustu hefur símamiðstöðin bæst við aðra valkosti sem viðskiptavinir fyrirtækisins geta valið um.