Atlantsskip hafa undirritað samstarfssaming við alþjóðafyrirtækið Frans Maas um lausavöruflutninga fyrirtækisins í Evrópu, Asíu og Ameríku. Frans Maas er einn öflugasti forflutningsaðilinn í heiminum í dag og er samningurinn því mikil viðurkenning fyrir Atlantsskip og framtíðaráform fyrirtækisins sem falla vel að því þjónustuframboði sem Frans Maas hefur fram að færa. Íslendingar þekkja fyrirtækið vel þar sem það hefur verið í nánu samstarfi við önnur íslensk flutningsfyrirtæki um árabil.

Að sögn Gunnars Bachmann, framkvæmdastjóra Atlantsskipa, er hér um frábæran samstarfsaðila að ræða, sem þekkir þarfir íslenskra innflytjenda út og inn, en Frans Maas hefur þjónustað íslenska markaðinn um áratugaskeið. Atlantsskip hafa á undanförnum mánuðum verið að efla þjónustuframboð sitt fyrir viðskiptavini sína og Frans Maas er okkur mikill styrkur í þeim efnum. Starfsemi Atlantsskipa hefur vaxið mjög hratt frá því að fyrirtækið hóf siglingar til og frá Evrópu fyrir þremur árum og er þetta því einmitt það sem til þurfti til þess að styrkja áframhaldandi vöxt þess. Gunnar segir Frans Maas eitt öflugasta forflutningsfyrirtækið í heiminum í dag og það sé mikil viðurkenning fyrir Atlantsskip að slíkt fyrirtæki leiti til Atlantsskipa með samstarf í huga.

Frans Maas var stofnað árið 1890 og hefur það um 7.400 starfsmenn á 214 skrifstofum í 32 löndum víðsvegar um heim. Styrkleiki fyrirtækisins felst í öflugu og traustu flutningsneti þar sem sérhæfðar lausnir hvers viðskiptavinar eru hafðar að leiðarljósi í þjónustuframboði þess. Atlantsskip geta því boðið viðskiptavinum sínum góð verð og góða þjónustu í gegnum flutningakerfi Frans Maas í framtíðinni.

Sjö ár eru liðin frá stofnun Atlantsskipa og hefur stöðugur vöxtur einkennt starfsemi þess. Í dag eru Atlantsskip með þrjú skip í rekstri, tvö á evrópuleið og eitt á ameríkuleið. Fyritækið er með vikulegar siglingar til Hollands, Englands, Færeyja og Danmerkur og siglingar á 28 daga fresti til Norfolk í Bandaríkjunum.