Atlantsskip hafa opnað skrifstofu í Rotterdam í Hollandi. Opnun skrifstofunnar er stærsta skref sem Atlantsskip hafa stigið til þessa í útrás félagsins. Fyrst í stað munu fjórir starfsmenn starfa á skrifstofunni en Jaap Zevenbergen veitir henni forstöðu. Skrifstofan í Rotterdam mun starfa undir nafninu Atlantsskip Benelux að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

Þar kemur fram að starfsemi Atlantsskipa mun eflast mjög við þessar breytingar en með þeim færist þungamiðja flutninganets fyrirtækisins til Rotterdam.

Ein helsta ástæða fyrir því að Atlantsskip velja að opna skrifstofu í Hollandi er að þar er umfangsmesta starfsemi félagsins utan Íslands. Stofnun skrifstofunnar er einnig í samræmi við þá stefnu Atlantsskipa að annast alla starfsemi fyrir félagið í þeim höfnum sem það hefur viðkomu.

Atlantsskip munu hefja vikulegar siglingar til og frá Rotterdam frá og með fimmtudeginum 17. maí. Þar verður lögð sérstök áhersla á heilgáma og hitastýrða flutninga. Miklar vonir eru bundnar við að þessi aukna þjónusta í Hollandi muni mælast vel fyrir hjá viðskiptavinum félagsins sem hafa nú tvo möguleika við afhendingu vara í Hollandi því félagið siglir áfram til Vlissingen.

Rotterdam verður sem fyrr segir ein mikilvægasta höfn félagsins varðandi flutninga til og frá öðrum svæðum í heiminum. Höfnin er mjög vel tengd við markaðssvæði Atlantsskipa hvort sem er á meginlandi Evrópu, í Asíu, Bandaríkjunum eða Suður-Ameríku. Með auknum vexti félagsins hafa þessir tengimöguleikar orðið sífellt mikilvægari.

Atlantsskip bjóða upp á vikulegar siglingar til og frá Evrópu. Einnig býður félagið upp á reglulegar flugsendingar til og frá öllum heimshornum. Opnun starfstöðvar Atlantsskipa í Rotterdam er liður í uppbyggingu félagsins á heimsvísu.