Kanadíska fyrirtækið Atlas Cold Storage hefur ákveðið að selja frystieiningu til að minnka skuldir og draga úr vaxtagreiðslum, en Avion Group hefur gert kauptilboð í félagið að virði 574 milljónir kanadískir dalir, sem samsvarar um 36 milljörðum króna.

Í frétt Globe and Mail segir að einingin sé sú þriðja sem fyrirtækið setur á sölulista á árinu, en Atlas Cold Storage neitaði að tjá sig um hvar einingin væri staðsett. Ekki er vitað hvort að salan hefur áhrif á kauptilboð Avion Group.

Tilboð Avion Group hljóðar upp á sjö kanadíska dollara á hlut en gengi bréfanna var 7,55 dalir á hlut á föstudaginn. Sjóðsfyrirtækið ABC, sem á 3,1 milljón hluta í Atlas Cold Storage telur að kauptilboð Avion Group sé of lágt og endurspegli ekki virði félagsins.

Avion á nú þegar 13,5% hlut í Atlas og segir því Irwin Michael, framkvæmdastjóri ABC, að fyrirtækið geti ekki tapað og að ef annar aðili býður hærra fái Avion hærri arð og ef þeir kaupa fyrirtækið hafa þeir tryggt sér góða fjárfestingu.