Atlas Cold Storage Income Trust hefur nægan stuðning hluthafa til að hafna yfirtökuboði Avion Group hf, segir í frétt National Post.

Atlas mælti með því í gær við hluthafa félagsins að hafna boðinu, en boðið hljóðaði upp á 7 kanadíska dali á hlut, eða 574 milljónir kanadískra dala. Avion hafði áður sagt að þeir myndu ekki hækka tilboðið.Talsmenn Atlas segja tilboðið ófullnægjandi og endurspegli ekki raunvirði fyrirtækisins.

Nýlegt bókhaldshneyksli hjá Atlas varð til þess að virði fyrirtækisins rýrnaði og hefur því stjórn Atlas sagt að yfirtökuboð Avion sé tækifærissinnað og ósanngjarnt.

Avion þarf að tryggja sér samþykki 66,7% hluthafa og hefur til 22. september til að gera það, en engir aðrir aðilar hafa boðið í Atlas.

Forstjóri Atlas, David Williamson, sagði í viðtali við kanadíska fjölmiðla í gær, að Atlas væri nú að skoða aðra möguleika, viðræður væru nú á frumstigi við nokkra aðila og koma samruni, yfirtaka eða sala á einhverjum eignum fyrirtækisins til greina í þeim efnum.

Stjórnarformaður Avion, Magnús Þorsteinsson sagðist fullviss um að tilboð Avion væri sanngjarnt og að það væri alls ekki víst að stjórn Atlas geti boðið hluthöfum betri kost.