Áætlað er að heildar kostnaður við fyrsta áfanga  álvers Norðuráls í Helguvík verði  60-70 milljarðar íslenskra króna.  Þar af er ríflega helmingur beinn erlendur kostnaður vegna kaupa á framleiðslubúnaði og tækni.

Í frétt frá félaginu kemur fram að um 15% koma til vegna kaupa á byggingarefni og búnaði. Áætlað er að vinnulaun við framkvæmdir verði um 15% kostnaðar eða nærri 10 milljörðum á þriggja ára tímabili. Kostnaður vegna hönnunar, framkvæmdastýringar og eftirlits er áætlaður 6-7 milljarðar.

„Sá þáttur verður að langmestu leyti í höndum íslenskra aðila og mun verkefnið því skila íslenskum verkfræðistofum, arkitektum og fleiri þekkingarfyrirtækum verulegum tekjum á næstu árum.  Annar kostnaður, s.s vegna flutninga, trygginga samningagerðar ofl. er áætlaður um 6 milljarðar," segir í frétt félagsins.

Áformað er að hefja álframleiðslu í Helguvík síðla árs 2010 og að framleiðslugeta álversins verði þá um 150.000 tonn á ári.