*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 13. febrúar 2006 16:37

Áætlaður söluhagnaður FL Group er 600 milljónir

Ritstjórn

Kauptilboð Magnúsar Kristinssonar í allt hlutafé Bílaleigu Flugleiða hefur verið samþykkt af stjórn FL Group. Áætlaður söluhagnaður FL Group er rúmlega 600 milljónir króna en kaupverðið er trúnaðarmál. Hagnaður af sölunni verður bókfærður á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Velta Bílaleigu Flugleiða nam um 700 milljónir króna á árinu 2005. Félagið hefur verið hluti af samstæðu FL Group en hverfur nú úr samstæðu félagsins. Kaupin eru gerð með fyrirvara um niðurstöðu reiðanleikakönnunar en áætlanir gera ráð fyrir að henni verði lokið innan viku að því er fram kemur í tilkynningu Kauphallar Íslands. Magnús Kristinsson festi kaup á P. Samúelssyni hf. seint á síðasta ári, en fyrirtækið hefur verið náinn samstarfsaðili Bílaleigu Flugleiða. Að sögn Magnúsar er ólíklegt að breytingar verði á rekstri bílaleigunnar og munu flestir lykilstjórnendur verða áfram í starfi hjá fyrirtækinu eins og kemur fram í Vegvísi Landsbankans.