Þrír nýir starfsmenn hafa að undanförnu bæst við ráðgjafarsvið endurskoðunarfyrirtækisins KPMG. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Atli Sævarsson var ráðinn til KPMG í ágúst. Hjá KPMG mun hann starfa í endurskoðun og ráðgjöf til fyrirtækja á sviði áhættustjórnunar (ERM), auk þess að koma að upplýsingatækniverkefnum. Atli starfaði áður hjá eignastýringu Arion banka í um fimm ár sem viðskiptastjóri ásamt öðrum sérhæfðum verkefnum. Hann starfaði í framhaldinu sem viðskiptastjóri hjá Advania áður en hann hóf störf hjá KPMG.

Atli útskrifaðist með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál og tölvunarfræði árið 2010. Einnig hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og samhliða vinnu er hann í meistaranámi í Fjármálum fyrirtækja við Háskólann í Reykjavík.

Fyrr í sumar var Hallgrímur Arnarson ráðinn til fyrirtækisins. Hans hlutverk er m.a. að samþætta vinnu við hönnun, uppsetningu og virkni á nýjum og framsæknum rafrænum lausnum fyrirtækisins sem og samfélagsmiðlum. Þessar lausnir lúta m.a. að rafrænni þjónustu og aðgengi að skýjalausnum KPMG.

Hallgrímur starfaði áður sem yfirmaður greiningardeildar hjá almannatengslafyrirtækinu Cohn & Wolfe Íslandi og hefur víðtæka reynslu af almannatengslum, vefþróun og greiningarvinnu af ýmsu tagi auk þess að hafa B.Sc. í lífefnafræði, framhaldsmenntun í sameindalíffræði og reynslu af störfum í lífvísindum.

Þá gekk Kári Steinn Karlsson til liðs við fyrirtækið á vormánuðum. Hann mun starfa við rekstrarráðgjöf, með áherslu á framleiðslu- og innkaupastjórnun.  Þá mun Kári Steinn koma að ráðgjöf í verkefnum á sviði straumlínustjórnunar (e. Lean Management).

Kári starfaði áður hjá Icelandair Technical Services sem verkefnastjóri á rekstrarstýringar- og fjármálasviði. Þar hafði Kári umsjón með skrásetningu og umbótum á verkferlum fyrirtækisins ásamt því að stýra ýmsum hagræðingarverkefnum. Þá er Kári einnig liðtækur maraþonhlaupari og hefur haldið fjölda fyrirlestra um markmiðasetningu, hugarfar og þjálfun.

Kári Steinn útskrifaðist með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá University of California, Berkeley árið 2011 og stundar meistaranám í Fjármálum fyrirtækja og Endurskoðun og reikningsskilum samhliða störfum.