*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Fólk 28. október 2020 14:41

Atli Rafn til PriceTracker á Íslandi

Breska fyrirtækið PriceTracker hefur opnað útibú á Íslandi í samstarfi við Atla Rafn Viðarsson. Var áður hjá Virtus og Tal.

Ritstjórn
Aðsend mynd

PriceTrakker í Bretlandi hefur opnað útibú á Íslandi í samstarfi við Atla Rafn Viðarsson sem áður starfaði í framkvæmdastjórn VIRTUS, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Nótu sem og sem sölu- og markaðsstjóri hjá Tal.

PriceTracker sérhæfir sig í hugbúnaði og lausnum sem gerir fyrirtækjum auðvelt að fylgjast með verðlagningu hjá samkeppnisaðilum sem bjóða upp á sambærilegar eða sömu vörur. Þannig eigi að vera hægt að bregðast við verðbreytingum samdægurs og ná forskoti í verðlagseftirliti gagnvart öðrum fyrirtækjum sem eru á sama markaði.

Síðustu tæpu þrjú árin hefur Atli Rafn starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi en hann starfaði áður hjá Virtus við bókhald og ráðgjöf fjögur og hálft ár frá 2013 til 2018.

Þar áður stýrði hann og var meðeigandi í Nótu í rúm fimm ár frá 2012 til 2018, hjá Nordic Accounting í tvö ár frá 2016 til 2018, samhliða því að vera yfirmaður sölu og markaðsmála hjá Payroll ehf. í tæp fjögur ár milli 2014 og 2018. Þar áður staraði hann við sölu og markaðsmál hjá Tal milli 2008 og 2012.

Að sögn Atla Rafns byggir PriceTrakker á áratuga reynslu og þjónustar mörg af stærstu fyrirtækjum á smásölumarkaði sem og vörumerki í Bretlandi, Bandaríkjunum og í Evrópu.

„Notendur hugbúnaðarins fá aðgang að notendavænu mælaborði sem birtir upplýsingar um allar verðbreytingar sem eiga sér stað, þróun verðbreytinga, birgðastöðu hjá samkeppnisaðilum og margt fleira. Skýrslur berast daglega eða eftir þörf og vinnan sem áður tók mögulega daginn eða nokkra daga, ef tími gafst, tekur nú hálftíma eða skemur,“ segir Atli Rafn.

„Eftir að hafa innleitt þessa lausn hjá fyrirtæki hér á landi á vormánuðum sáu forsvarsmenn PriceTrakker að þeirra lausn myndi henta vel fyrir íslenskan markað og höfum við síðustu mánuði verið að undirbúa og aðlaga okkur að honum. Í ljósi heimsfaraldurs hefur almenn sala færst mikið yfir á netið og því mikilvægt að vera með aðgengilegt mælaborð og greiningartól til að fylgjast með samkeppninni á auðveldan hátt.“

Ásamt því að bjóða upp á verðkannanir býður PriceTrakker upp á ýmsar aðrar lausnir tengdar Google Shopping og aðrar Google þjónustur, lausn fyrir vörumerki til að fylgjast með endursöluaðilum, LinkedIn lausnir og margt fleira.