Hið sameinaða AppliCon fyrirtæki verður í hópi stærrri SAP ráðgjafarhúsa á Norðurlöndum, með yfir 100 ráðgjöfum. Tekjur AppliCon A/S verða að fullu teknar inn í samstæðuuppgjör Nýherja frá og með 1. október 2005. Áætlað er að kaupin auki EBITDA Nýherja um 25 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2005. Sameiginleg velta þeirrar starfsemi sem mun í framtíðinni falla undir AppliCon Holding ehf. er áætluð 1,5 milljarðar króna árið 2005. Kaupverð AppliCon A/S er trúnaðarmál.

Í tilkynningu Nýherja til Kauphallarinnar kemur fram að aðgangur AppliCon A/S að danska markaðnum skapar ný sölutækifæri fyrir SAP X-press lausnir á Norðurlöndum, en það eru pakkalausnir sem þróaðar hafa verið hjá Nýherja. Þær eru sérsniðnar að þörfum ákveðinna atvinnugreina eða fagsviða og byggðar á SAP og Microsoft tækni. Sex slíkar lausnir hafa verið þróaðar fyrir sjávarútveg, viðskiptabankastarfsemi og líftryggingastarfsemi, auk launakerfa, mannauðskerfa og sérhæfðs veiðiferðakerfis fyrir útgerðarfyrirtæki. SAP X-press lausnirnar henta einkar vel meðalstórum fyrirtækjum, því tiltölulega skamman tíma tekur að innleiða þær.

Í tilkynningu Nýherja er haft eftir Þórði Sverrissyni, forstjóra Nýherja hf.,; ,,er markaðurinn fyrir viðskiptahugbúnaðarlausnir á Norðurlöndum í örum vexti og hefur SAP náð þar leiðandi stöðu. Nýherji hefur þróað mjög góðar sérhæfðar pakkalausnir fyrir fyrirtæki í ákveðnum atvinnugreinum. Við teljum AppliCon öflugt fyrirtæki til að selja þessar lausnir til danskra viðskiptavina og þekkt nafn til að þróa sem fyrirtæki á Norðurlöndum."

Með þátttöku ráðgjafa frá AppliCon A/S í verkefnum fyrir íslensk fyrirtæki og starfi íslenskra ráðgjafa í Danmörku næst að samnýta víðtæka þekkingu og reynslu ráðgjafa og veita þannig enn betri þjónustu við viðskiptavini. Sameinað fyrirtæki verður jafnframt betur í stakk búið til að takast á við stærri og flóknari verkefni en hingað til.