Haft er eftir Mark Flanagan, sem fer fyrir verkefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, í sérstakri tilkynningu sem send hefur verið fjölmiðlum að IMF-áætlunin styðjist við góða stefnumörkun en ekki sérstaka stjórnmálaflokka eða samsteypustjórnir.

„Svo framarlega sem viðeigandi stefnumörkun er til staðar á Íslandi getur stuðningurinn haldið áfram," er haft eftir honum í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur að sérstök sendinefnd IMF muni sækja Ísland heim um miðjan febrúar til að fara yfir áætlunina.

Er þar vísað til þeirrar efnahagsáætlunar sem stjórnvöld og IMF hafa sammælst um vegna lánafyrirgreiðslu sjóðsins til Íslendinga.