Í ræðu sinni á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins ræddi Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, um aðgerðir sem bankastjórnin vildi grípa til.

Þar sagði hann: „Strax í haust fékk Seðlabankastjórnin til liðs við sig sérfræðinga frá einum stærsta banka Bandaríkjanna, undir forsystu ágæts vinar míns, fyrrum aðstoðarfjármálaráðherra Clintons-stjórnarinnar, til að skipuleggja skyndiuppboðsmarkað á gjaldeyri fyrir þá sem áttu innlend skuldabréf hér. Bandaríkjamennirnir höfðu mikla reynslu af þess háttar aðgerðum, bæði frá Tyrklandi og Kóreu en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi bíða með þesskonar aðgerðir til vors en þá hefur hún að mestu misst marks. Þessi áætlun sem fór hljótt hefði sparað Íslandi gríðarlegar fjárhæðir, losað um hengjur sem geta síðar skapað fjármagnsflótta og hefði flýtt fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Bankastjórnin sem vildi lækka vexti sagði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn: „Við erum bæði með belti og axlabönd, við búum í kjallaranum og þið heimtið að við göngum með fallhlíf.“

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Viðskiptablaðið hefur aflað er Davíð hér að vísa til Jeffreys Shafer, varaforseta Citibank og fyrrverandi aðstoðarfjármálaráðherra Bandaríkjanna, en hann kom hingað eftir hrun bankanna í haust. Shafer hitti bankastjórn Seðlabankans og forsætis- og fjármálaráðherra.

Shafer taldi að á þessum tíma væri augljóst að mikil taugaveiklun ríkti meðal fjárfesta út af Íslandi og gengið væri hagstætt fyrir Íslendinga. Því var það hans skoðun að ef erlendum eigendum skuldabréfa væri gert kleift að komast úr landi á þessum kjörum hefði það í för með sér mikinn afslátt af skuldum.

Eftir því sem komist verður næst vildi bankastjórn Seðlabankans fara þessa leið, eins og kemur fram í orðum Davíðs hér á undan, en sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins munu hafa haft efasemdir um það á þeim tíma. Glugginn sem gafst til þessara aðgerða var hins vegar aðeins nokkrir dagar og ekkert varð af þessum áformum.