Samgönguráðherra og vegamálastjóri hafa samþykkt tilhögun áætlunar um breikkun Suðurlandsvegar. Leiðin milli Reykjavíkur og Selfoss yrði 2+2 vegur að undanteknum kafla í Svínahrauni og á Hellisheiði sem yrði 2+1 vegur. Fyrsti hluti verkefnisins verður boðinn út síðar á árinu.

Heildarkostnaður við verkið er áætlaður kringum 15,9 milljarðar króna. Til ráðstöfunar á þessu ári verður kringum einn milljarður og verður fyrst boðinn út tvöföldun kaflans milli Lögbergsbrekku og Litlu kaffistofunnar og síðan kafli næst Vesturlandsvegi.

Kristján L. Möller samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kynntu fulltrúum nokkurra sveitarstjórna á Suðurlandi og Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi tillögur og áætlanir um hvernig hagað verður tvöföldun Suðurlandsvegar.

Meginhluti leiðarinnar verður 2+2 vegur en kaflinn milli Litlu kaffistofunnar og Kambabrúnar verður 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum þar sem vegbreidd er 15,5 metrar.

Þar sem Suðurlandsvegur er með 2+2 sniði verður þversnið hans breitt, með 11 metra miðjusvæði, sem er sams konar tilhögun og á Reykjanesbraut. Þar sem aðstæður eru þröngar, til dæmis á kafla við Rauðavatn, verður vegurinn með svokölluðu þröngu vegsniði, þ.e. með aðskildum akstursstefnum með vegriði og 2+2 kafli um Kamba verður einnig með þeirri tilhögun.

2+1 kaflinn milli Litlu kaffistofunnar og Kambabrúnar verður með vegriði en breiðari en núverandi 2+1 kafli í Svínahrauni. Einnig stendur til að breikka þann 2+1 kafla um einn og hálfan metra, úr 14  í 15,5 metra.