Áætlun um það hvernig leysa eigi mikinn gjaldeyrisójöfnuð nýju bankanna þarf að liggja fyrir áður gengið verður endanlega frá uppgjöri milli gömlu og nýju bankanna, að sögn Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Nýja Kaupþings.

Fjármálaeftirlitið hefur gefið út lokafrest til að ganga frá uppgjöri bankanna, en sá frestur er 17. júlí.

Finnur segir í samtali við Viðskiptablaðið að leysa þurfi gjaldeyrisójöfnuðinn eftir ýmsum leiðum; að hluta til með því að breyta skuldum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur. Það muni þó taka tíma.

Spurður hvort leysa þurfi þennan ójöfnuð fyrir 17. júlí svarar hann:  „Það þarf að liggja fyrir áætlun um hvernig það verður gert."