atNorth, áður Advania Data Centers, lagði fyrr í þessum mánuði inn fyrirspurn hjá Akureyrarbæ um lóð undir gagnaver við Hlíðarfjallsveg. Í erindinu sem Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, ritar fyrir hönd fyrirtækisins, er óskað eftir eins hektara lóð með forgangsrétt að nærliggjandi lóðum til stækkunar.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar tók jákvætt í erindið á fundi ráðsins á miðvikudaginn og fól sviðsstjóra skipulagssviðs að hefja vinnu við gerð deiliskipulags með það að markmiði að hægt verði að úthluta lóð undir byggingu gagnavers í samræmi við erindið. Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að athafnasvæðið sé samkvæmt aðalskipulagi ætlað undir hreinlega umhverfisvæna atvinnustarfsemi.

Gísli Kr. Katrínarson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs atNorth, segir í samtali við Viðskiptablaðið, að málið skammt á veg komið. Ýmis atriði eigi eftir að skýrast frekar áður en í ljós kemur hvort af byggingu gagnavers verði. Fyrirtækið sé alltaf með augun opin og hafi í gegnum tíðina skoðað staðsetningar víða á Íslandi og Norðurlöndunum.

atNorth gerði nýjan raforkusamning í sumar við Landsvirkjun vegna aukinna umsvifa félagsins en það stækkaði fyrr á árinu gagnaver sitt á Fitjum í Reykjanesbæ. Þá er stefnt að því að fyrsti áfangi nýs gagnavers félagsins í Stokkhólmi í Svíþjóð opni í desember en ráðgert er að gagnaverið kosti um níu milljarða króna í byggingu þegar það verður fullbúið.