Bræðurnir Pétur Marel og Árni Freyr Gestssynir stofnuðu fyrirtækið Átök og afrek fyrir skömmu. Átök og afrek er hlutafélag í kringum samnefnt tímarit sem bræðurnir hyggjast gefa út 3-4 sinnum á ári. Mun það fjalla um kraftaíþróttir á borð við brasilískt jiu jitsu, blandaðar bardaga- íþróttir (MMA) og kraftlyftingar.

Afreksþjóð í kraftíþróttum

Íslendingar hafa átt gífurlega sigursæla keppendur í kraftlyftingum, crossfit og blönduðum bardagaíþróttum. Ber þar helst að nefna UFC-kappann Gunnar Nelson, tvöfalda Crossfitleikameistarann Annie Mist Þórisdóttur og nú síðast Katrínu Tönju Davíðsdóttur sem vann leikana í ár, að ónefndum Hafþóri Júlíusi Björnssyni, keppanda í Sterkasta manni heims nokkur ár í röð, en Hafþór er eflaust betur þekktur hjá mörgum sem Fjallið.

Einnig náðu Sunna Rannveig Davíðsdóttir og Bjarki Þór Pálsson frá Mjölni þeim árangri að verða Evrópumeistarar í MMA fyrir örfáum vikum. Ljóst er því að enginn hörgull er á íslensku afreksfólki í kraft- og bardaga- íþróttum. Bræðurnir vildu stofna blað- ið því þeim fannst ekki nægilega mikið sagt frá þessum miklu afrekum íþróttafólksins.

„Okkur þykir þessar íþróttir ekki fá eðlilega umfjöllun í stóru miðlunum,” segir Pétur Marel. „Markmiðið er fyrst og fremst að segja frá því íþróttafólki sem nær til að mynda góðum árangri á minni mótum. Ég held að það verði enginn ríkur af blaðaútgáfu á Íslandi. Ég held að það sé alveg galin hugmynd.”

Vilja hafa kjöt á beinunum

Blaðið er gefið út í 5000 eintökum til að byrja með og segist Pétur halda að það verði viðmiðið hvað næstu eintök varðar. Blaðið er rétt rúmlega 40 síður að lengd.

Til þess að tryggja að kjöt verði á beinunum í hverri útgáfu hafa bræðurnir hugsað sér að gefa blaðið aðeins út 3-4 sinnum á hverju ári. Átök og afrek er gefið út bæði á netinu og prenti, og bræðurnir dreifa blaðinu á íþróttastöðvar á borð við Mjölni og CrossFit Reykjavík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Athugasemd: Í blaðinu kom fram að útgáfa Átaka og afreka næmi 500 eintökum. Það er ekki rétt, heldur er upplag blaðsins 5000 eintök. Er það leiðrétt hér með.