Hörð átök eiga sér nú stað um völd milli rafmyntafélaganna Hive Blockchain og Genesis Mining sem grafa eftir rafmyntum í gagnaveri Advania Data Centers í Reykjanesbæ. Hive á tölvubúnað í gagnaverum á Íslandi og í Svíþjóð sem Genesis hefur umsjón með fyrir Hive. Þá er Genesis jafnframt stærsti hluthafi Hive með 26,3% hlut. Forsvarsmenn Hive tilkynntu í byrjun apríl að þeir teldu Genesis brjóta í bága við samkomulag um rekstur gagnaveranna. Vegna brots á samkomulaginu telja þeir að Genesis skuldi Hive fimmtíu milljónir dollara, jafnvirði sex milljarða króna. Þá eigi Hive rétt á að slíta samstarfi við Genesis og láta fyrirtækið kaupa tölvubúnað gagnaveranna af sér.

Reyna fjandsamlega yfirtöku

Forsvarsmenn Hive gagnrýna að Genesis hafi einhliða tilkynnt um hækkun verðskrár án þess að sundurliða  í hverju hinn aukni kostnaður felist eða hvað félagið greiðir fyrir raforku á Íslandi  og í Svíþjóð. Í tilkynningu frá því kemur fram að félögin hafi átt í viðræðum í allan vetur án þess að botn kæmist í málið. Allt traust sé þrotið og Hive sé knúið til að grípa til aðgerða. Skipa á sérstaka matsnefnd til að fara yfir brot á samningsákvæðum og næstu skref í málinu. Genesis brást við með tilraun til fjandsamlegrar  yfirtöku á Hive. Genesis  tilkynnti á föstudaginn langa, 19. apríl, að það færi fram á hlutafafund hjá Hive þar sem kosin yrði ný stjórn þar sem meirihlutinn væri hliðhollur Genesis. Genesis hefur tilgreint hvaða stjórnarmenn það hyggist bjóða fram. Frank Holmes, starfandi forstjóri Hive, segir í tilkynningu að nái tillagan fram að ganga muni hún valda öðrum hluthöfum í Hive tjóni. Hann vonast til þess að aðrir hluthafar muni hafna tillögunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .