Á aðalfundi DV ehf. þann 29. ágúst nk. verður lögð fram tillaga um riftun á kaupum Þorsteins Guðnasonar, fyrrum stjórnarformanns, á 2% hlut í DV. Félag Þorsteins keypti hlutinn á fjórar milljónir og greiddi fyrir með 60% hlut í vefsíðunni eirikurjonsson.is. Stjórnarmenn í DV voru ósáttir með viðskiptin og samþykktu riftun á kaupunum, auk þess að kjósa sér nýjan stjórnarformann.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti reynst erfitt fyrir stjórnina að koma riftunartillögunni í gegn, í ljósi þess að Þorsteinn er einn fjögurra hluthafa sem standi saman og eigi meira en helmingshlut í félaginu. Þeir hafi komið sameiginlega með fjármagn inn í DV í því skyni að rétta blaðið við. Með kaupum Þorsteins á 13% hlut Lilju Skaftadóttir nýverið á hann tæp 30% í félaginu. Reynir Traustason ritstjóri er því ekki lengur stærsti hluthafi félagsins, en hann á tæp 29%.