Komin er upp nokkuð flókin staða fyrir Kristján Þór Júlíusson, 2. varaformann Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins sem nú stendur yfir.

Kristján býður sig fram til endurkjörs en hann var fyrst kjörinn 2. varaformaður, samkvæmt nýjum skipulagsreglum flokksins, á sérstökum flokksráðsfundi flokksins fyrir um ári síðan. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, bauð sig nokkuð óvænt fram gegn Kristjáni Þór í morgun en þau fluttu bæði framboðsræður sínar fyrir stundu.

Það sem hins vegar flækir stöðu Kristjáns Þórs, fari svo að hann hljóti endurkjör, er að strax eftir að framboðsræðum var lokið var tekin til kosninga tillaga Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, um breytingar á hlutverki 2. varaformanns skv. skipulagsreglum, sem í stuttu máli fólu það í sér að taki sá hin sami við embætti ráðherra í ríkisstjórn segi viðkomandi af sér sem 2. varaformaður. Landsfundur samþykkti með öðrum orðum að 2. varaformaður flokksins gæti ekki skv. reglum flokksins gegnt ráðherraembætti á sama tíma. Tillaga Elliða var samþykkt með um 340 atkvæðum gegn um 310.

Kristján Þór er sem kunnugt er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og má telja nær öruggt að hann geri tilkall í ráðherraembætti, fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn setjist í ríkisstjórn að loknum kosningum í vor.