Lífeyrissjóðir vilja ná inn tveimur stjórnarmönnum í stjórn HB Granda samkvæmt heimildum DV.

Eigendahópur að baki Kristjáni Loftssyni, stjórnarformanni og eins stærsta eiganda félagsins, er nú við stjórn í félaginu. Samkvæmt DV njóta allir núverandi stjórnarmenn stuðnings þessa eigendahóps.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær þá óska allir núverandi stjórnarmenn eftir endurkjöri, en auk þeirra hafa tveir nýir boðið sig fram til setu í stjórninni. Þau eru Albert Þór Jónsson og Anna G. Sverrisdóttir. Samkvæmt heimildum DV er Önnu stillt fram afLífeyrissjóði verslunarmanna en Albert hefur að undanförnu falast eftir stuðningi annarra lífeyrissjóða í eigendahópi HB Granda.

Stjórn HB Granda hefur einnig fengið kröfu um að margfeldiskosningu verði beitt við stjórnarkjörið. Við margfeldiskosningu er gildi hvers atkvæðis margfaldað með fjölda þeirra stjórnarmanna sem kjósa skal og má hluthafi skipta atkvæðamagni sínu, þannig reiknuðu, í hverjum þeim hlutföllum, sem hann sjálfur kýs, á jafnmarga menn og kjósa skal eða færri.