Katrín Júlíusdóttir kveðst leið yfir þeirri pólaseringu sem orðið hefur í þjóðfélaginu og innan stjórnmálanna og hversu vægðarlaus átökin eru orðin, en rætt var við hana í Áramótum.

„Þessi stöðugu átök halda okkur í formalíni á svo mörgum sviðum. Á meðan við erum að rífast gerist ekkert í samfélaginu, í stað þess að fólk setjist niður og velti fyrir sér hvaða markmiðum við viljum ná og hvaða leiðir eru færar til að ná þeim markmiðum, hvort sem það er í heilbrigðismálum, samgöngumálum eða skattamálum, svo eitthvað sé nefnt, þá erum við föst í kreddum. Markmiðin hafa gleymst í þessu rifrildi um leiðirnar, þetta er orðið eins og trúarbrögð leiðarkerfisins og ekki fyrr en við losum okkur við kreddurnar og hættum þessu hjakki tekst okkur að ná áfangastað,“ segir Katrín ákveðin. Katrín segir starf framkvæmdastjóra SFF vera gefandi og skemmtilegt. Annríkið er mikið hjá samtökunum og má nefna að framundan eru á þriðja hundrað innleiðinga, stórar og smáar, frá ESB í gegnum EES-samninginn á sviði fjármálamarkaðar.

„Við viljum eiga meira samtal við stjórnmálamenn um hvað þær þýða í raun og hvaða afleiðingar þær muni hafa fyrir Ísland. Mér finnst líka skipta máli að pólitíkin geri sér grein fyrir og ræði um það með okkur og við okkur hvaða afleiðingar það mun hafa fyrir samkeppnishæfni Íslands ef við náum ekki að halda í við upptöku þessa regluverks hérlendis samtímis því og hún er tekin upp ytra. Þá myndast misræmi á milli markaða og þeirra reglna sem gilda hérlendis annars vegar og í Evrópu hins vegar. Lítið land á borð við Ísland á mikið undir því að geta boðið upp á sama regluverk og gildir í Evrópu vegna þess að þá er einfaldara fyrir erlenda aðila að eiga við okkur viðskipti. Ef innleiðingum seinkar hérlendis getum við lent í þessu misræmi á milli regluverka og við teljum að það geti haft veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf,“ segir Katrín.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .