"Ég get ekki neitað því að það hafi ekki haft einhver áhrif á ákvörðunina," sagði Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins þegar hann var spurður að því hvort átök undanfarinna daga í Straumi Burðarás fjárfestingabanka hafi haft einhver áhrif á þá ákvörðun forstjóra og stjórnar að selja bréf félagsins í SBF.

Að sögn Þorgeirs hefur verið tekin ákvörðun um að selja allan hlut lífeyrissjóðsins, 5,04%.

- Ræddu þið við aðra hluthafa í Straumi áður en þið tóku ákvörðun ykkar?

"Menn hafa í sjálfu sér skrafað saman en það fóru ekki fram formlegar viðræður við einn né neinn."

- Ekki að þið hafið boðið öðrum hluthöfum ykkar hlut til kaups?

"Nei, við viljum standa að sölunni með þeim hætti að þeir sem áhuga hafa, hvar svo sem þeir skipa sér í flokki, hafi jafna möguleika til að eignast hlutinn."

- Það er ekki þannig að það hafi verið komið samkomulag milli annara hluthafa sem hafi gert ykkur erfitt að vera þarna inni?

"Nei, það er allavega ekki þannig í mínum huga."