*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 25. apríl 2019 15:09

Átökin um kvótakerfið

Kristján Ragnarsson, fyrrum formaður LÍÚ, barðist fyrir kvótakerfinu í nær aldarfjórðung og hafði sigur.

Kristján Torfi Einarsson
Kristján Ragnarsson var formaður Landssambands útgerðamanna og helsti talsmaður kvótakerfisins um áratugaskeið.
Haraldur Guðjónsson

Þegar Viðskiptablaðið leit fyrst dagsins ljós vorið 1994 voru tíu ár liðin frá því að Kristján hafði betur í einu stærsta og harðvítugasta deilumáli þjóðarinnar á seinni hluta síðustu aldar þegar aflamarkskerfi var komið á fót við stjórn fiskveiða 1984. Frá fyrsta degi kerfisins logaði þjóðfélagið stafnanna á milli og ekki síst brunnu eldar í Landssambandinu þar sem útgerðarmenn skipuðu sér í andstæðar fylkingar, með eða á móti kvótakerfinu. 

„Haustið 1983 birti Hafró svörtu skýrsluna svokölluðu og öllum var ljóst að framundan væru erfiðir tímar.  Það yrði ekki þrautalaust að draga svo úr sókninni að hægt yrði að byggja stofnana upp í samræmi við ráðleggingar vísindamanna. Vandinn var hins vegar svo brýnn að það var óverjandi að bregðast ekki við honum. Menn urðu að ná saman um aðgerðir og kvótakerfi varð ofan á þótt miklar efasemdir hefðu verið um ágæti þess. 

Ég var einn af þremur meðlimum nefndar sem hafði það hlutverk að úthluta kvótanum í upphafi og það er ansi merkilegt að ekki skyldi rísa upp meiri ágreiningur eða málaferli vegna þeirrar ráðstöfunar. Þennan frið má þó aðallega þakka því að úthlutunin var sögð tímabundin og aðgerðin réttlætt með því að hún yrði endurskoðuð að ári liðnu. 

Þessari endurskoðun var hins vegar frestað ár eftir ár og úthlutunin framlengd þar til ný lög um stjórn fiskveiða voru samþykkt á Alþingi árið 1990. Með þeim lögum varð frjálsa framsalið að veruleika sem var lykilforsenda fyrir því að hægt var að fækka skipum í flotanum. Í mínum huga var það verkefni í algjörum forgangi. Á þessum tíma fóru skipin hratt stækkandi og sífellt bættust ný skip við flotann. Vandamálið var að allur þessi floti var á eftir sömu fiskunum sem fækkaði jafnhratt og flotinn stækkaði. Það var ljóst að ef útgerðin átti að vera sjálfbær og skila arði urðum við að snúa þessari þróun við og gera veiðarnar hagkvæmari. 

Þetta tókst. Stundum hef ég á tilfinningunni að fólk geri sér ekki grein fyrir hversu mikilvægur og afdrifaríkur þessi viðsnúningur var. Ekki bara fyrir útgerðina og fiskframleiðendur, heldur fyrir allt samfélagið. Þetta var lykillinn a þeirri efnahagslegu velferð sem við höfum búið við síðan þá,“ segir Kristján.

 Aðspurður segir Kristján erfitt að henda reiður á einhverju einu sem ráðið hafi úrslitum í deilunni.  „Þetta kostaði vissulega átök og setti mikið mark á störf mín sem formaður. Ég fór þvert og breitt um landið og predikaði yfir mínum félagsmönnum sem voru langt í frá á einu máli. Þær prédikanir hefðu ekki skilað neinum árangri ef ég sjálfur hefði ekki trúað á fagnaðarerindið en ég hafði mikla sannfæringu fyrir því að þetta væri rétta leiðin áfram.“ 

Eftir að Kristján hætti sem formaður Landssambands útgerðarmanna árið 2003 tók öldurnar að lægja í kringum og innan sjávarútvegsins. Átakatíminn var að mestu liðinn og aðrar raddir úr atvinnulífinu orðnar meira áberandi í fréttatímum landsmanna. En sér hann eftir einhverju á ferlinum og myndi gera eitthvað öðruvísi nú? 

„Það held ég ekki. Allavega ekki í stórum málum eins og um kvótakerfið. Reynslan hefur sýnt að þetta var rétta leiðin og ég er frekar þakklátur fyrir að hafa tekið þátt í að koma því í gegn. Vissulega voru átökin oft erfið og gátu verið þungbær en þegar ekki er barist til einskis er ekki um neina eftirsjá að ræða. Einu sinni á ferlinum fór um mig þannig að ég efaðist um hvort við höfðum gert rétt. Það var þegar ég heimsótti Grimsby eftir að við höfðum farið með sigur í þorskastríðinu og horfði á alla togarana sem lágu tugum saman bundnir við bryggju. Það var ekki auðvelt að sjá hina hliðina á málinu og verða vitni af þeim afleiðingum sem barátta okkar hafði á daglegt líf fólks sem þarna bjó. 

Annars fannst mér alltaf erfiðast þegar kjaraviðræður enduðu í verkföllum. Þá fann ég til ábyrgðar og fannst erfitt til þess að hugsa að ég ætti þar mögulega sök í máli. Ef ég er ósáttur við eitthvað á ferlinum þá eru það helst verkföllin. Þau voru alltof mörg,“ segir Kristján. 

 

Nánar er fjallað um málið í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði eða pantað tímaritið.