Bókin Á fullu í 40 ár með endurminningum Sambíó-kóngsins Árna Samúelssonar kom út á dögunum. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson skráði endurminningar Árna. Viðskiptablaðið birti brot úr bókinni í síðasta tölublaði.

Áramótahópurinn aftur á stjá

Vorið 1992 fréttum við að Eignarhaldsfélag Verslunarbankans vildi selja 100 milljón króna hlutinn sem það átti í Stöð tvö. Áramótahópurinn kom saman á ný undir stjórn Óskars Magnússonar. Haft var sam- band við nokkra aðila sem við vissum að höfðu áhuga. Smám saman stækkaði hópurinn úr fimm aðilum í ellefu. Meðal þeirra voru Jóhann Óli Guðmundsson í Securitas, Hildur Petersen í Hans Petersen og Rolf Johansen heildsali. Sigurður Gísli Pálmason í Hagkaup fékk svila sinn Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðanda með meiru til að slást í hópinn. Samningar tókust við Eignarhaldsfélagið og var hluturinn seldur á genginu 1,6 eða á 160 milljónir. Aðilarnir sem keyptu hlut voru: Við, Securitas, Hekla, Oddi, Hagkaup, Kók, Hans Petersen, Brauð, Sigurjón Sighvatsson, Teppabúðin og Rolf Johansen. Um þetta leyti fórum við í veiðiferð í Laxá í Kjós. Mér er það minnisstætt að ég sagði við viðstadda „Nú skulum við bara gera samkomulag um það að ef einhver fer út úr þessum hópi þá verður hann að selja hlutinn innan hópsins.“ Menn voru almennt sammála því.

Þegar leið á sumarið bárust þau tíðindi að nýstofnað fyrirtæki sem hét Útherji hf. hefði keypt hlutabréfin í Fjölmiðlun sem var sameignarfélag kaupmanna í Kringlunni og fleiri aðila um hluti í Íslenska útvarpsfélaginu. Nokkrir félagsmanna Fjölmiðlunar, þar á meðal Bolli Kristinsson í Sautján og Garðar Sigurgeirsson í Herragarðinum, höfðu óskað eftir því að félaginu yrði slitið, en áður en til þess kom seldi stjórn félagsins, sem í voru Jóhann J. Ólafsson, Haraldur Haraldsson í Andra og Jón Ólafsson í Skífunni, bréfin að þeim forspurðum. Minnihlutinn í félaginu brást hinn versti við og kallaði meirihlutann öllum illum nöfnum. Skúli Jóhannesson í TékkKristal sagði að þeir hefðu komið eins og þjófar að nóttu og stolið bréfunum, Útherji hf. væri aðeins leppur fyrir þessa sömu aðila og þarna væri um að ræða „valdagræðgi og brenglaða siðferðiskennd.“ Jóhann J. Ólafsson svaraði og sagði að salan hefði verið eðlileg og ekki rétt að tala um þjófnað þar eð enginn hefði tapað neinu. Hann benti á að Áramótahópnum hefðu verið seld bréf í Íslenska útvarpsfélaginu án samráðs við aðra hluthafa. Sannleikurinn var sá að þremenningarnir og einn til, Guðjón Oddsson, myndu missa meirihlutavöld sín í Íslenska útvarpsfélaginu þegar Fjölmiðlun yrði slitið. Þeir voru vitaskuld ekki sáttir við það og beittu þessum aðferðum við að halda völdunum. Síðar náðust sættir innan Fjölmiðlunarhópsins og ekki urðu nein eftirmál.

Meira úr bókinni má lesa í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.