Kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins og launþegasamtaka eru lausir um áramót, og hafa viðræður staðið í nokkurn tíma. Gott samkomulag hefur ríkt milli aðila vinnumarkaðarins um samningsgerð á síðari árum, ef marka má samningstímabilið, en það hefur tvisvar í röð spannað fjögur ár sem er óvenjulangt á íslenskum vinnumarkaði.

Óstöðugleiki í efnahagslífinu veldur því hins vegar að í komandi samningum vilja báðir aðilar aðeins semja til tveggja ára. Samtök atvinnulífsins hafa lýst sig eindregið mótfallin almennum launahækkunum, en í nýbirtri kröfugerð Starfsgreinasambandsins er kallað eftir 4% hækkunum almennra launa tvö ár í röð.

Viðskiptablaðið ræddi við Vilhjálm Egilsson í vikunni, áður en kröfugerðin lá fyrir. Þá sagðist Vilhjálmur vera bjartsýnn þangað til annað kæmi í ljós og að samskipti milli SA og launþegahreyfingarinnar hefðu verið jákvæð og uppbyggjandi. "Allir kjarasamningar snúast þó á endanum um laun og taxta.” . . . . . . .