Guðrún Ragnarsdóttir var nýlega skipuð formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en Guðrún hefur setið í stjórn þess frá árinu 2013.

Gleraugu atvinnulífsins nauðsynleg

Guðrún starfar sem ráðgjafi og meðeigandi hjá Strategíu ehf. en hún telur ástæðuna fyrir því að hún var beðin um að taka sér sæti í stjórn á sínum tíma hafi verið að hún hafi haft reynslu úr bæði opinbera og einkageiranum.

„Þeir hafa verið að horfa til þess að ég væri með gleraugu atvinnulífsins þegar ég sæti þarna í stjórn,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið: „Ég hef talsverða reynslu úr stjórnsýslunni, var formaður Bankasýslunnar í rúm þrjú ár og var framkvæmdastjóri hjá LÍN í fimm ár, auk þess að hafa setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja.“

Fór beint í nám erlendis

Guðrún tók viðskiptafræði við Carleton University í Kanada á árunum 1987 til 1991 en hún segir það hafa verið ótrúlega góða fjárfestingu að hafa farið strax í nám erlendis frekar en hérna heima en á þeim tíma hafði viðskiptafræðin ekki breyst mikið hérlendis í tugi ára. Hélt hún svo til Hollands í MBA.

„Þetta var 13 mánaða prógram sem er dálítíð ólíkt því sem er hérna heima því það endaði í rauninni með fræðilegri ritgerð, svo þetta er eiginlega semí-MBA með meistaragráðuendi. Mér leið mjög vel í Hollandi og býr hjarta mitt ennþá í landinu. Fyrir lokaverkefni, sem hluta af náminu, vann ég í fimm mánuði í dótturfélagi ATMT.

Það var svolítið gaman, en margir halda að Hollendingar séu voðalega frjálslyndir svona almennt, því flestir hafa farið til Amsterdam og upplifa að rauða hverfið og hass sé aðgengilegt fyrir alla. En þegar kemur að því að vinna með Hollendingum eru þeir mjög agaðir, þeir eru rosa bírókratar, en á sama tíma skiptir þá gríðarlegu máli að ná samstöðu um niðurstöðu. Átökin verða því ekki á fundum heldur við kaffivélina enda miklir kaffidrykkjumenn,“ segir Guðrún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .