Atorka hefur eignast 29,81% hlut í Clyde Process Solutions plc (CPS) í tengslum við útgáfu á nýju hlutafé hjá félaginu. CPS er skráð á AIM markaðnum í London. Heildarverð kaupanna er um níu milljónir punda. Fyrir kaupin átti Atorka um eina milljón punda í félaginu eða um 9,7% hlutafjár félagsins.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að Atorka fjármagnar kaupin með handbæru fé. Í kjölfar hlutafjáraukningarinnar kaupir CPS allt hlutafé í bandaríska félaginu MAC Equipment Inc.

CPS er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í framleiðslu á háþróuðum lausnum til flutninga og meðhöndlunar á hráefni í framleiðsluferlum, ásamt tengdum mengunarvarnarbúnaði. Félagið er með starfsemi í öllum heimsálfum. Lausnir frá CPS auka hagkvæmni í framleiðsluferlum, bæta nýtingu hráefna og minnka mengum verulega. Þessar lausnir eru meðal annars notaðar í efnaiðnaði, gipsframleiðslu, sementsframleiðslu, stálframleiðslu og matvælaiðnaði. Meðal viðskiptavina CPS er General Electric, Exon Mobil, Kraft, Wrigley?s og Nestlé. Mikill vöxtur er í starfsemi félagsins og velta sameinaðs félags á síðasta ári var um 7 milljarðar króna.

Atorka er stærsti hluthafinn með um 30% eignarhlut í dag. Eftir kaupin á Atorka rétt á að tilnefna einn mann í stjórn félagsins.

?Þessi fjárfesting fellur vel að fjárfestingarstefnu okkar, CPS og dótturfélög starfa á vaxtarmörkuðum og eru leiðandi félög á heimsvísu. Við sjáum veruleg tækifæri á þessum markaði sem CPS starfar á og munum við styðja félagið til frekari vaxtar á næstu misserum," segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku í tilkynningu.