Atorka hefur skráð sig fyrir tæplega 100 milljón nýjum hlutum í InterBulk Investments plc við fyrirhugaða hlutafjáraukningu hjá InterBulk á verðinu 20 pence á hlut. Heildarverðið samsvarar því um 20 milljónum punda eða 2,6 milljörðum króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að fyrir átti Atorka 23.550.000 hluti í félaginu sem var um 24% hlutafjár félagsins fyrir hlutafjárhækkunina. Eignarhlutur Atorku eftir fyrirhugaða hlutafjárhækkun verður rúm 40%. Atorka fjármagnar kaupin með handbæru fé. InterBulk hefur fengið samþykki Takeover Panel á því að eignarhlutur Atorku fari yfir almenn yfirtökumörk eftir hækkunina. Fyrirhuguð hlutafjárhækkun er háð samþykki hluthafafundar í Interbulk.


Hlutafjáraukning InterBulk er framkvæmd til að fjármagna að hluta kaup InterBulk á öllu hlutafé í félaginu United Transport International Limited (UTI). InterBulk kaupir félagið á 79,5 milljónir punda. InterBulk fjármagnar kaupin á UTI með sölu hlutafjár og lánsfjármögnun frá Bank of Scotland. Kaupin eru af hálfu InterBulk háð samþykki hluthafafundar.


Stefna InterBulk er að vera leiðandi félag á heimsmarkaði í sérhæfðum gámaflutningum fyrir efnaiðnað en á þeim markaði eru gerðar miklar kröfur til áreiðanleika. Interbulk er þegar þriðja stærsta félag heims í tankgámaflutningum fyrir efnaiðnað. Með kaupunum á UTI verður InterBulk með leiðandi markaðsstöðu í gámaflutningum á hráefnum fyrir efnaiðnað í Evrópu. Velta InterBulk á ársgrundvelli verður um 230 milljónir punda eftir kaupin eða tæplega 30 milljarðar króna.


Markaðarnir sem InterBulk starfar á eru stöðugt vaxandi vegna (1) alþjóðavæðingar sem útheimtir sífellt meiri flutninga á vökvum fyrir efnaiðnaðinn innan og á milli heimsálfa, (2) aukningar í gámaflutningum vegna þess hagræðis sem þeir fela í sér umfram aðra flutningsmáta, og (3) aukinni krafna til meðhöndlunar og öryggis í meðhöndlun efna sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið. Félagið stefnir á að vaxa á þessum mörkuðum og leiða samruna fyrirtækja sem starfa að sérhæfðum gámaflutningum fyrir efnaiðnað og ná þannig aukinni stærðarhagkvæmni.


?Þetta er í takt við fjárfestingarstefnu okkar, en InterBulk starfar á áhugaverðum og vaxandi markaði og hjá félaginu starfa öflugir og reyndir stjórnendur. Markmið okkar er að styðja þau fjárfestingarverkefni sem við erum þátttakendur í til arðbærs vaxtar og sjáum við veruleg sóknarfæri fyrir InterBulk með kaupunum á UTI," segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku í tilkynningu til Kauphallarinnar.