Fjárfestingafélagið Atorka jók við hlut sinn í breska hlutafélaginu NWF Group plc í vikunni og nemur hlutur Atorku nú 12,3%, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Í tilkynningu frá NWF til kauphallarinnar í London segir að Atorka hafi aukið hlut sinn í 968 þúsund hluti. Kaupverð á hlut var ekki gefið upp en viðskipti með bréf félagsins í gær fóru fram á genginu 547 pens á hlut. Markaðsvirði NWF er um 37,5 milljónir punda, sem samsvarar um rúmum fjórum milljörðum íslenskra króna. Atorka keypti um 25 þúsund hluti í NWF í janúar á þessu ári. Kaupverðið var 710 pens á hlut og átti félagið 10,1% í NWF eftir viðskiptin. NWF er skrá á AIM-markaðinn í London segir í Viðskiptablaðinu í dag.

NWF var stofnað árið 1871 og skiptist niður í fjögur sjálfstæð fyrirtæki sem sérhæfa sig í rekstri örudreifingarmiðstöðvar fyrir aðföng í stórmarkaði, dreifingu á fóðri til bænda, eldsneytisdreifingu og rekstri stórra garðyrkjuverslana. Tvær einingar innan samstæðunnar tilkynntu kaup á öðrum félögum fyrr í ágúst. Landbúnaðareiningin samþykkti að taka yfir breska félagið Nutrition Express fyrir 482 þúsund pund (54 milljónir króna) og eldsneytisdreifingareiningin samþykkti að kaup Broadland Fuels fyrir 625 þúsund pund (70,4 milljónir króna).