Atorka hefur ákveðið að vinna að sölu á þremur félögum í sinni eigu sem starfa á heilbrigðismarkaði á Íslandi og í Eystrasaltslöndunum. Um er að ræða Parlogis hf, Icepharma hf og UAB Ilsanta. Atorka hefur ráðið fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. til að annast söluferlið á næstu vikum að því er kemur fram í tilkynningu.


Þessi ákvörðun tengist breyttri stefnumörkun Atorku sem nú leggur áherslu á stærri fjárfestingaverkefni í félögum sem hafa möguleika á verulegum innri og ytri vexti á alþjóðlegum mörkuðum. Stærstu verkefni Atorku í dag eru Promens, Jarðboranir og Interbulk.

Atorka hefur undanfarin ár unnið að verulegum umbreytingum í Parlogis, Icepharma og Ilsanta með góðum árangri. Rekstur þessara félaga hefur gengið vel síðustu misseri og framtíðarhorfur eru góðar.

Parlogis er sérhæft vörustjórnunarfyrirtæki (e. Logistics Service Provider) sem sérhæfir sig í víðtækri vörustjórnun fyrir heilbrigðisgeirann fyrir alls um 30 markaðsfyrirtæki og framleiðendur.

Icepharma hf er leiðandi markaðsfyrirtæki á íslenskum lyfja- og heilbrigðismarkaði. Í lok árs 2005 sameinuðust Austurbakki og Ísmed inn í Icepharma. Félagið hefur sterka stöðu á öllum sviðum starfsemi sinnar en þau eru; lyfjasvið, heilbrigðissvið neytendasvið og íþróttasvið.


Ilsanta er leiðandi sölu- og dreifingaraðili á lækningatækjum og hjúkrunarvörum fyrir heilbrigðisstofnanir í Eystrasaltslöndunum. Félagið er með starfsstöðvar í Vilnius, Riga og Tallin að því er kemur fram í tilkynningunni.