Fyrirtækjaverkefni Atorku Group eru einkum á sviðum endurnýtanlegrar orku, umbúðalausna í plasti, vatnshreinsiiðnaðar, umhverfistækni og vörudreifingar.  Þessi félög eru flest fjármögnuð til lengri tíma eða skuldlétt og rekstur þeirra gengur almennt ágætlega.  Verulegur hluti af rekstri fyrirtækjaverkefna Atorku er utan Íslands en rekstur hérlendis er að stærstum hluta í endurnýtanlegri orku.

Þetta kemur fram í greinargerð um bein og óbein áhrif á rekstur og efnahag Atorku Group í því óvenjulega ástandi sem nú ríkir á fjármálamörkuðum, en Fjármálaeftirlitið fer fram á að allir útgefendur hlutabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi, birti slíka greinargerð.