Fjárfestingarfélagið Atorka tilkynnti í dag að það geri hluthöfum Afls fjárfestingarfélags tilboð í hluti þeirra á genginu 2,5 og í staðinn fái hluthafarnir hluti í Atorku á genginu 4,25. Þetta eru sömu kjör og viðskipti Atorku með hluti í Afli fóru fram á þann 17. ágúst síðastliðinn, en þá tryggði Atorka sér 54,98% af hlutafé í Afli. Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að þetta er jafnframt hæsta verð sem Atorka hefur greitt fyrir hluti í Afli síðastliðna sex mánuði.

Fram kemur í tilkynningunni að Afl verður rekið sem sem dótturfélag Atorku. Markmiðið með yfirtökunni er að mynda stærra og öflugra fjárfestingarfélag. Samanlagt markaðsvirði þessara félaga er 15,5 ma.kr. en til samanburðar er markaðsvirði Burðaráss 57,7 ma.kr., Straums Fjárfestingarbanka 34,2 ma.kr. og Kaldbaks 13,2 ma.kr. segir í Vegvísi Landsbankans.