Atorka Group hefur aukið við hlut sinn í Interbulk Investments plc. og á nú rúm 23% hlutafjár í félaginu, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Markaðsverðmæti hlutarins eru rúmar 800 milljónir króna.

Interbulk Investments er þriðja stærsta flutningafyrirtæki í heiminum með sérhæfðar gámaeiningar fyrir efnaiðnað. Fyrirtækið nýtir nýja tækni í flutningum og er með reynslumikið stjórnendateymi, segir í tilkynningunni.

Velta fyrirtækisins á síðasta ári var 13 milljarðar íslenskra króna (140 milljónir evra) og EBITDA síðasta árs var 1,1 milljarður króna (12,4 milljónir evra). Markaðurinn sem Interbulk starfar á hefur vaxið um 10% á ári, síðast liðin fjögur ár.

Höfuðstöðvar Interbulk eru í Rotterdam og er félagið skráð á AIM markaðnum í London. Atorka Group er stærsti hluthafinn í Interbulk.