Stjórn Atorku Group hyggst leggja tillögu um hlutafjárhækkun fyrir hluthafafund félagsins þann 6. október næstkomandi. Þar hyggst stjórn félagsins sækja um heimild að hækka hlutafé félagsins með áskrift nýrra hluta allt að sex hundruð milljóna króna að nafnverði, 600.000.000.

Farið verður fram á að heimild þessi standi til næsta aðalfundar félagsins eða en þó aldrei lengur en til 1. maí 2006. Hlutir við slíka hækkun skulu skiptast í jafn marga einnar krónu hluti og vera í sama flokki og aðrir hlutir í félaginu. Hluthafar falla frá forgangsrétti að hækkunarhlutum. Hlutirnir veita réttindi í félaginu frá skrásetningu hækkunarinnar hjá hlutafélagaskrá. Engar hömlur eru á viðskiptum með hækkunarhlutina og nýir hluthafar sæta ekki innlausn nema slíkt leiði af lögum.

Í tillögu fyrir hluthafafund segir: "Stjórn er heimilt að ákveða að hækkunarhluti megi greiða með öðru en reiðufé. Stjórn félagsins er heimilað að gera þær breytingar á samþykktum sem leiðir af hlutafjárhækkun samkvæmt þessari heimild sem og að ákveða nánari útfærslu hennar."